Summary: | Verkefnið er opið nemendum og starfsfólki Háskólans á Akureyri Verkefnið fjallar um einelti, áhrif þess á líðan einstaklinga, áhrif bekkjarbrags á einelti og fylgst er með ferli þróunarverkefnis gegn einelti sem unnið var í Glerárskóla á árunum 2002 - 2003. Í fyrri hluta verkefnisins er fjallað um einelti á fræðilegan hátt þar sem hugtakið einelti er skilgreint og tíundað mikilvægi þess að samræmi sé í skilningi hugtaksins meðal foreldra, nemenda og starfsfólks skóla. Einning er fjallað um helstu þætti sem hafa áhrif á einelti s.s. skóla- og bekkjarbrag þar sem sérstök áhersla er lögð á mikilvægi góðrar bekkjarstjórnunar og skýra stefnu skóla gegn einelti. Tíunduð eru helstu einkenni þeirra sem leggja aðra í einelti; gerendur og þeirra sem verða fyrir einelti; þolendur þó með þeim fyrirvara að allir geti lent í því á lífsleiðinni að leggja aðra í einelti eða að verða lagðir í einelti. Bent er á hvaða áhrif einelti getur haft á þá sem verða fyrir því sem börn, vanlíðan bæði andlega og líkamlega og hvernig einelti getur haft mótandi áhrif á einstaklinginn fyrir lífstíð sem gjarnan brýst fram á fullorðinsárum bæði hjá gerendum og þolendum. Kynntar eru tvær starfsleiðir til að vinna gegn einelti, Uppbyggingarstefnan og Olweusaráætlun gegn einelti. Þessar starfsleiðir hafa báðar rutt sér til rúms í grunnskólum landsins og hugmyndafræðin að baki þeim er borin saman, kostir og gallar. Í seinni hluta verkefnisins er fylgst með ferli þróunarverkefnis í Glerárskóla á Akureyri þar sem starfsmenn skólans unnu samkvæmt Olweusaráætlun gegn einelti á árunum 2002 – 2003. Tilgangur vinnunnar var að draga úr einelti innan skólans. Gerð er grein fyrir helstu þáttum Olweursaráætlunarinnar og fjallað um hvað í starfinu tókst vel og hvað mátti betur fara. Sagt er frá niðurstöðum könnunar á því hvernig starfsfólki fannst til takast. Að lokum er dregin ályktun af starfsferlinu, hvort það skilaði þeim árangri sem til var ætlast eða hvort betur má ef duga skal. Líklega er hið síðarnefnda raunin þegar einelti er annars vegar.
|