Náttúruverndarnefndir sveitarfélaga: er hagsmuna náttúru og umhverfis gætt?

Fyrstu almennu lögin um náttúruvernd voru sett árið 1956, lög nr. 48/1956. Í þeim lögum er fyrst talað um náttúruverndarnefndir í einhverri mynd. Þá höfðu nefndirnar mun meira vald en þær hafa nú og ákvörðunarvald í ýmsum málum, t.d. skipulagsmálum og friðun svæða. Hlutverki nefndanna var breytt með...

Full description

Bibliographic Details
Main Author: Lilja Víglundsdóttir 1970-
Other Authors: Landbúnaðarháskóli Íslands
Format: Thesis
Language:Icelandic
Published: 2011
Subjects:
Online Access:http://hdl.handle.net/1946/9259
Description
Summary:Fyrstu almennu lögin um náttúruvernd voru sett árið 1956, lög nr. 48/1956. Í þeim lögum er fyrst talað um náttúruverndarnefndir í einhverri mynd. Þá höfðu nefndirnar mun meira vald en þær hafa nú og ákvörðunarvald í ýmsum málum, t.d. skipulagsmálum og friðun svæða. Hlutverki nefndanna var breytt með nýjum náttúruverndarlögum árið 1971 og þá var verulega dregið úr valdi þeirra og það fært yfir til sveitarstjórna og náttúruverndarráðs. Meginhlutverk nefndanna var þá orðið að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði. Lögunum var svo aftur breytt árið 1996 en núverandi nefndir vinna samkvæmt lögum frá 1999. Stærsta hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaga í dag samkvæmt náttúruverndarlögum er að vera ráðgefandi aðili fyrir sveitarstjórn um náttúruverndarmál og að stuðla að náttúruvernd á sínu svæði. Einhverjir hafa haldið því fram að náttúruverndanefndirnar séu ekki að gæta hagsmuna náttúrunnar í þeim málum sem þær fjalla um og er ætlað að veita umsagnir um. Jafnvel sagt að þær hafi unnið gegn þeim hagsmunum sem þeim bera að gæta. Hugmyndin að gerð þessa verkefnis vaknaði í kjölfar umræðna um störf náttúruverndarnefnda. Markmiðið er að skoða vinnu náttúruverndarnefnda, niðurstöðu mála sem þar eru til umfjöllunar og hvort að þær séu að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögum. Valin voru í verkefnið fjögur sveitarfélög, Álftanes, Árborg, Garðabær og Hafnarfjörður. Verkefnið er svo til eingöngu unnið út frá fundargerðum náttúruverndarnefnda þessara sveitarfélaga og voru fundargerðir þeirra skoðaðar yfir 12 mánaða tímabil, frá 1. september 2006 til 31. ágúst 2007. Farið var yfir öll mál sem þar komu fram og til sérstakrar umfjöllunar í verkefninu voru valin 5-6 mál frá hverju sveitarfélagi. Þau voru síðan rakin frá upphafi til enda og meðhöndlun þeirra skoðuð. Við þessa vinnu þurfti einnig að skoða fundargerðir annarra nefnda á vegum bæjarins og bæjarráðs til þess að sjá feril málanna. Helstu niðurstöður eru þær að nefndirnar eru að mestu leyti að vinna innan þess ramma sem löggjöfin segir til um. Hagsmunum náttúrunnar er ekki fórnað fyrir hagsmuni annarra hópa en þó koma upp tilfelli þar sem náttúruverndarnefndir sýna ekki nógu mikinn vilja til að koma á framfæri athugasemdum sem telja mætti að ættu við út frá umhverfislegu sjónarmiði. Það á til dæmis við hjá tveimur nefndum þegar deiliskipulagstillaga vegna stækkunar álvers er til kynningar. Nefndirnar eru einnig misjafnlega virkar í starfi sínu við að stuðla að náttúruvernd og að hafa frumkvæði að því að efla bæjarbúa til þess að taka þátt í því að skapa vistvænna og hreinna umhverfi. Sóknarfæri til þess að gera samfélagið meðvitaðra um umhverfismál þarf að grípa og það tekst þeim ekki alltaf þó að nýtanlegar hugmyndir til þess komi fram. Í skilningi laganna er erfitt að gagnrýna störf nefndanna. En miðað við þá umræðu sem hefur skapast um umhverfismál og náttúruvernd þá er aukinn þrýstingur á að við reynum að halda í það hreina loft sem við höfum, þá fallegu náttúru sem landið okkar skartar og það ómengaða vatn sem við höfum yfir að ráða. Því er nauðsynlegt að við eflum starf þessara nefnda og þá möguleika sem starf þeirra býður upp á. Ef til vill er það löggjöfin sem er helsta brotalömin í þessu. Líklega þarf að breyta henni til að við getum eflt náttúruverndarstarfið í heimabyggð, en það er að verða lífsnauðslegt vegna þess álags sem er á umhverfið t.d. vegna aukinnar neyslu almennings og framleiðsluaðferða fyrirtækja.