Summary: | Ritgerðin er lokuð Hrun íslensku viðskiptabankanna hafði gríðarlega miklar afleiðingar fyrir heimilin í landinu. Fyrirtæki áttu erfitt uppdráttar, samdráttar fór að gæta hvert sem litið var og fjöldi fólks missti vinnu sína. Í góðærinu sem er oft kennt við árið 2007 höfðu margir hverjir ráðist í fjárfestingar. Hvort sem fjárfest var í fasteignum, bifreiðum, hlutabréfum eða einfaldlega slegið lán fyrir utanlandsferðum. Sumir áttu íbúðir en vildu stækka við sig og keyptu því aðra eign, án þess að vera búnir að selja fyrri eignina. Mikil aukning varð á lántökum og voru lán í erlendum gjaldmiðlum þá sérstaklega vinsæl en þau þóttu hagstæðari en önnur lán og báru yfirleitt lægri vexti en hin hefðbundnu verðtryggðu og óverðtryggðu lán bankanna. Reiðarslag varð þegar krónan féll. Fólk þurfti að standa straum af næstum helmingsaukningu við greiðslu á höfuðstól lánanna um hver mánaðarmót. Sjaldan hefur jafnmikið og nú verið rætt um stöðu skuldara. Ríkisstjórn hefur sætt mikilli gagnrýni vegna skuldastöðu heimila í landinu. Með setningu embættis Umboðsmanns skuldara taldi ríkisst jórnin sig vera að bæta stöðu verst stöddu heimilanna. Markmið ritgerðarinnar er að skoða hver er réttarstaða skuldara með tilliti til innheimtulaga-,laga um aðför, laga um nauðungarsölu- og gjaldþrotalaga og hvernig greiðsluaðlögun kemur til aðstoðar skuldurum. Niðurstaðan er sú að setning embættis Umboðsmanns skuldara hafi verið nauðsynleg, þrátt fyrir galla í löggjöf þeirra. Þá er þetta eina úrræði fyrir skuldara sem ná ekki að standa undir fjárskuldbindingum sínum ella myndu skuldarar að öllum líkindum fara í gjaldþrot, en Umboðsmaður skuldara hefur ríkar heimildir til að aðstoða skuldara við að endurskipuleggja fjárhag sinn.
|