Summary: | Skólastarf á Íslandi hefur tekið ýmsum breytingum undanfarin ár og hefur stefnan skóli án aðgreiningar verið opinber menntastefna á Íslandi frá árinu 2008. Nemendahópar íslenskra grunnskóla eru sífellt fjölbreyttari, námsleg staða þeirra og hegðun mismunandi sem og uppruni þeirra og menning. Starfsumhverfi kennara er krefjandi og margt sem hefur þar áhrif, til dæmis álag og auknar kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar. Þau úrræði sem kennarar hafa duga kannski ekki til þess að koma til móts við þessar breytingar í skólaumhverfinu. Einnig benda rannsóknir til þess að hegðunarvandi nemenda sé enn mikið áhyggjuefni kennara. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að skoða umfang hegðunarvanda nemenda í grunnskólum í Reykjavík að mati kennara og hvort og þá hvaðan kennarar fá stuðning til þess að mæta þörfum nemenda sinna. Þátttakendur voru N=77 grunnskólakennarar og var meirihluti þeirra konur 93,5% (n=72) og á aldrinum 51-60 ára. Niðurstöður leiddu í ljós að meirihluti þátttakenda þyrfti að takast á við erfiða hegðun nemenda nánast daglega eða oft á dag. Meirihluti hópsins sagðist oft eða mjög oft fá stuðning frá öðrum kennurum eða stuðningsfulltrúum og tæpur helmingur taldi að stuðningsfulltrúarnir nýttust vel við kennslu nemenda með hegðunarvanda. Þá töldu um 60% þátttakenda að stuðningsfulltrúar væru frekar illa eða mjög illa undirbúnir fyrir kennslu nemenda með hegðunarvanda og hefðu frekar litla eða mjög litla þekkingu á hvernig kennslu skuli háttað hjá nemendum með hegðunarvanda (75%). Þær aðferðir sem þátttakendur sögðust beita oftast í tengslum við hegðun nemenda voru að styrkja viðeigandi hegðun (96%), styrkja ekki óviðeigandi hegðun (94%) og beita félagslegum styrkjum (93%). Nær allir sem tóku þátt í þessari rannsókn voru mjög sammála eða sammála því að nemandi sem sýnir erfiða hegðun lærir minna vegna hennar og meirihluti var mjög sammála eða sammála um að erfið hegðun fengi þá til að íhuga að hætta að kenna. Þessar niðurstöður benda til þess að hegðunarvandi nemenda í grunnskólum sé enn töluverður og að ...
|