Summary: | Inngangur: Starfssvið talmeinafræðinga er fjölbreytt og sinna þeir margvíslegri þjónustu eins og greiningu og íhlutun vegna tjáskiptaröskunar hjá börnum og fullorðnum, sem og ráðgjöf þar um. Það er hagur allra að gæði þjónustu sé eins og best verður á kosið, hvort tveggja fyrir þá sem veita hana og þiggja. Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um talmeinaþjónustu á Íslandi, sér í lagi um það sem snýr að ákefð meðferðar og meðferðarleiðum í tengslum við málhljóðaröskun og málþroskaröskun. Verkefnið er liður í að afla mikilvægra og gagnlegra upplýsinga sem hægt verður að nýta til að varpa ljósi á núverandi aðstæður í því skyni að bæta þjónustu við skjólstæðinga talmeinafræðinga. Aðferð: Send var rafræn könnun með tölvupósti til allra talmeinafræðinga í Félagi talmeinafræðinga á Íslandi. Þátttaka miðaðist við þá sem voru starfandi við fagið þegar rannsóknin var gerð en var einkum beint til þeirra sem sinntu börnum og ungmennum. Þó gafst öllum talmeinafræðingum kostur á að svara spurningum í tengslum við faglega endurmenntun og bakgrunn. Niðurstöður: Meðal helstu niðurstaðna kom fram að flestir skjólstæðingar talmeinafræðinga eru börn og/eða ungmenni með málþroska- og málhljóðaröskun. Talmeinafræðingar sinna þessum hópi skjólstæðinga að meðaltali einu sinni í viku, í 31-45 mínútur í senn. Fjöldi meðferðartíma og lengd þjálfunartímabils fer eftir ýmsum þáttum, s.s. eðli vandans og hvar þjónustan er veitt. Stór hluti fer þá leið að blanda saman meðferðarleiðum í stað þess að halda sig við ákveðna aðferð. Á undanförnum árum hefur talmeinaþjónusta færst í nærumhverfi barna og ungmenna, sér í lagi með fjölgun talmeinafræðinga. Þrátt fyrir fjölgun starfandi talmeinafræðinga hafa biðlistar eftir talþjálfun lengst auk þess sem margir talmeinafræðingar finna fyrir starfstengdu álagi. Umræða: Niðurstöður könnunarinnar veita innsýn í störf talmeinafræðinga og hvernig þjónustu þeirra er háttað. Þær eru nokkuð samhljóða erlendum rannsóknum hvað varðar lengd og tíðni þjálfunartíma og þá skjólstæðingahópa sem algengast er að ...
|