Summary: | Alla tuttugustu öldina hafa Íslendingar upplifað miklar breytingar á flestum sviðum þjóðlífsins. Það á líka við á sviði útivistar og umhverfismenntar. Þetta eru mjög víðtæk hugtök og til að afmarka efnið er fyrst og fremst fjallað um sögu göngu- og hálendisferða um óbyggðir Íslands ásamt þeirri útikennslu og umhverfismenntun sem átt hefur sér stað frá byrjun tuttugustu aldar. Samhliða þessu eru skoðuð viðhorf til umhverfismála, náttúruverndar og umhverfisvitundar allt frá miðri nítjándu öld. Ritgerðin er heimildaritgerð. Ýmis rit og bækur sem tengjast ferðum og útivist auk skólasögu landsmanna hafa komið að gagni. Leitast hefur verið eftir að fanga þau atvik og þær samfélagslegu breytingar sem áhrif hafa haft á viðfangsefnið og þýðingu hafa haft fyrir framvinduna. Það er ekki fyrr en á tuttugustu öld, þegar frístundir verða almennar og ekki aðeins hluti af lífi yfirstéttarinnar, sem veruleg aukning verður í skipulögðum ferðum um landið. Efnahagur þjóðarinnar hefur haft mikil áhrif á þessa þróun, til dæmis bílaeign landsmanna og samgöngubætur. Á seinni árum hefur hraði neyslusamfélagsins einnig komið fram á útivistarsviðinu með auknum búnaði og þátttöku almennings. Fyrstu merki um reynslumiðað nám og útikennslu eru gjarnan tengdar umbótum í kennslustarfi í upphafi aldarinnar. Þarfir einstaklingsins og aukin umhverfisumræða hvetja til meiri umhverfismenntar þótt þróunin sé hægfara. Þá hafa vaknað æ áleitnari spurningar um stöðu mannsins í náttúrunni, ásælni hans til auðlinda hennar og slæma umgengni sem valdið hefur skaða sem bregðast þarf við. Aukin umhverfisvitund hefur komið umhverfismálum á dagskrá. Jákvæð reynsla úti í náttúrunni hvetur til góðra tengsla einstaklingsins við umhverfi sitt. Gönguferðir og útivist í frístundum og samþætting skólastarfs við útikennslu og umhverfismennt gæti stuðlað að virðingu fyrir náttúrunni og þroskaðri umhverfisvitund. During the 20th century, Iceland underwent significant societal change. This is also the case for outdoor activities and environmental education. As these ...
|