Summary: | Fasteignamarkaður er í heild sinni mjög mikilvægur hluti heildarhagkerfisins. Í þessari ritgerð verður fjallað um markað með atvinnuhúsnæði og þær kenningar sem helstar eru í hagfræði um verðmyndun á honum. Fjallað verður um eldri kenningar sem hafa haft mótandi áhrif á hugsun hagfræðinga á þessu sviði en einnig nútímalegri athuganir sem gerðar hafa verið. Þar má nefna kenningar manna eins og Ricardos, Marshalls, Christallers, Hotellings, Von Thünens og fleiri. Nokkur af helstu líkönum hagfræðinnar á þessu sviði koma til umfjöllunar til að auka skilning á flæði á markaði með atvinnuhúsnæði og undirmörkuðum þess, þar á meðal eru flæðilíkan Blank og Winnick og 4Q líkan þeirra DiPasquale og Wheatons. Í síðari hluta ritgerðarinnar verður fjallað um verðmyndun, eftirspurn og framboð á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Gerð verður grein fyrir því hvernig verð hefur þróast og helstu áhrifaþáttum þeirrar þróunar, þar með talið vöxt einkaneyslu, vaxtaþróun, áhrif af ferðaþjónustu á atvinnuhúsnæðismarkað, staðsetningu og seljanleika. Fjallað verður um markaðinn í heild sinni en honum einnig skipt niður í sveitarfélög og einstök hverfi í Reykjavík til að fá nánari mynd af svæðisbundinni þróun. Með þessum hætti verður mögulegt að máta þennan markað hér í Reykjavík og nágrenni við margar af helstu kenningum hagfræðinnar um verðmyndun og þróun uppbyggingar á markaði fyrir atvinnuhúsnæði. Í umræðukafla eru dregnar saman niðurstöður. Þær sýna að markaður með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu dróst jafn harkalega saman og íbúðamarkaður við efnahagshrunið 2008 og að hann hefur enn ekki náð fullum krafti á nýjan leik. Um leið sýna niðurstöður að nú eru hagstæð skilyrði til að byggja upp nýtt atvinnuhúsnæði, lágir vextir, há leiga og uppsöfnuð eftirspurn sem þarf að svara, sérstaklega á ákveðnum svæðum innan höfuðborgarsvæðisins, sem gerð verður grein fyrir í ritgerðinni.
|