Breytingar á yfirborðshita sjávar á Nútíma á Drekasvæðinu, Norður Atlantshafi. Götungarannsókn á sjávarsetskjarna

Í ágúst árið 2010 var farinn rannsóknarleiðangur á vegum íslenskra og norskra stjórnvalda á Drekasvæðið, Norður Atlantshafi. Markmið hans var að safna gögnum um Jan Mayen svæðið með áherslu á mögulega olíuvinnslu. Jarðeðlisfræðilegar mælingar hafa áður verið framkvæmdar í þessum tilgangi á svæðinu....

Full description

Bibliographic Details
Main Author: Rebekka Hlín Rúnarsdóttir 1991-
Other Authors: Háskóli Íslands
Format: Bachelor Thesis
Language:Icelandic
Published: 2014
Subjects:
Online Access:http://hdl.handle.net/1946/18496
Description
Summary:Í ágúst árið 2010 var farinn rannsóknarleiðangur á vegum íslenskra og norskra stjórnvalda á Drekasvæðið, Norður Atlantshafi. Markmið hans var að safna gögnum um Jan Mayen svæðið með áherslu á mögulega olíuvinnslu. Jarðeðlisfræðilegar mælingar hafa áður verið framkvæmdar í þessum tilgangi á svæðinu. Alls voru teknir 39 djúpsjávarkjarnar og neðstu hlutar þeirra skoðaðir með tilliti til hugsanlegra kolvetnisauðlinda. Efri hlutar kjarnanna nýtast því til rannsókna á fornloftslagi, breytingum á straumakerfum og sjávarhita. Í Norður Atlantshafi og nágrenni hafa áður verið teknir sjávarsetskjarnar í sama tilgangi. Í þessu verkefni er tekinn fyrir efsti hluti kjarna A2010-11-604 sem var 70 cm langur. Hann var mældur með GEOTEK og hlutaður niður á 0,5 cm fresti en þar af voru tíu sýni valin til frekari rannsókna. Þessi sýni voru frostþurrkuð, sigtuð og götungagreind. Götungar eru einfruma sjávarlífverur sem finnast hvarvetna á hafsvæðum jarðar. Svifgötungar hafast við í yfirborðslögum sjávar og stjórnast búsvæðadreifing þeirra af hita og seltu sjávar. Kjöraðstæður hverrar tegundar eru ólíkar og því geta hlutföll þeirra sagt til um breyttar umhverfisaðstæður. Algengasta svifgötungategundin í kjarna A2010-11-604 var Neoglobigerina pachyderma (v). Hátt hlutfall þessarar arktísku tegundar bendir til þess að sjávarstraumar af pólsvæðum séu og hafi verið ríkjandi á Drekasvæðinu. Hlutföll Globigerina bulloides benda þó til hlýnunar sjávar þegar nær dregur nútíma. Hátt hlutfall Globigerina quinqueloba fyrir um 8600 árum BP gefur vísbendingu um færslu pólskila yfir Drekasvæðið á þeim tíma. Fyrri götungarannsóknir gerðar í Norður Atlantshafi endurspegla að stórum hluta þessar sömu niðurstöður í breytingum á yfirborðshita sjávar á Nútíma.