Summary: | Rannsóknir hafa sýnt að færni einstaklinga til að leysa tvö verkefni í einu er takmörkuð (Pugh o.fl, 1996; Pashler, 1993; Verghese o.fl., 2002). Jafnframt hafa rannsóknir sýnt fram á kynjamun við lausn ýmissa hugrænna verkefna sem gæti skýrst af mismun í líffræðilegri starfsemi kynja (Cowan o.fl., 2000; Baxter o.fl., 2003). Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvort munur væri á getu kynja til að vinna tvö verkefni í einu. Einnig var ætlunin að skoða hvort munur væri á frammistöðu kvenna og karla við að leysa eitt ákveðið verkefni og hvort munur er á frammistöðu þátttakenda almennt þegar eitt verkefni er unnið samanborið við tvö verkefni samtímis. Í rannsókninni var notast við millihópasnið þar sem rannsóknarhópur vann tvö verkefni samtímis, spilaði tölvuleik og hlustaði á sögu, en samanburðarhópar sitt hvort verkefnið til samanburðar. Jafnt var í öllum hópum (N= 20) auk þess sem kynja- og aldurshlutfall var eins. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 60 nemar við Háskólann á Akureyri, 30 konur og 30 karlar og var meðalaldur þeirra 25 ár. Notast var við dreifigreiningu og t-próf óháðra úrtaka og miðað var við alpha-stuðulinn 0,05. Niðurstöður leiddu í ljós að bæði kynin í rannsóknarhóp stóðu sig jafn vel í leikjahlutanum en konur stóðu sig betur í söguhlutanum þar sem þær svöruðu fleiri spurningum rétt miðað við karla. Ekki fannst neinn kynjamunur innan samanburðarhópanna beggja, söguhóps og leikjahóps, þar sem þátttakendur framkvæmdu aðeins eitt verkefni. Aftur á móti var töluverður munur á rannsóknarhóp og söguhóp annars vegar þar sem þátttakendur í rannsóknarhóp svöruðu færri spurningum rétt miðað við þátttakendur í söguhóp, og rannsóknarhóp og leikjahóp hins vegar, þar sem þátttakendur í rannsóknarhóp fengu mun lægra skor í tölvuleiknum miðað við þá í leikjahóp. Niðurstöður rannsóknarinnar benda því til að konur standi sig betur en karlar við framkvæmd tveggja verkefna í einu. Jafnframt hefur það truflandi áhrif að vinna tvö verkefni í einu í samanburði við eitt verkefni.
|