Summary: | Ritgerð til M.A. prófs í menningarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst Með aðferðum myndlistargreiningar er fjallað um það sem list getur birt þar sem öðrum sviðum er orða vant. Til þessa verks hef ég valið gjörning kanadísku listakonunnar Freyu Bjargar Olafsson, Avatar (Olafson, 2011) og sýningu eistnesku listakonunnar Liinu Siib, A Woman Takes Little Space (Siib, 2011). Gjörningur Freyu fór fram innan ramma Sequences listahátíðarinnar í Reykjavík árið 2011 en sýning Liinu Siib var framlag Eistlands á síðasta tvíæringi í Feneyjum, þess fimmtugasta og fjórða. Bæði verkin fjalla um tilraunir „Konu“ til endurbirtingar hugveru inn í samfélagið; Að sleppa undan tákninu Kona í tilraun til þess að vera táknuð hugvera innan sinnar eigin tegundar. Verkefnin eru í ritgerðinni staðsett innan listsögulegs, menningarfræðilegs og félagslegs ramma. Leiðir myndlistar til þess að greina sjálfa sig innan síns sviðs eru skoðaðar í sjónmenningarsögulegu samhengi. List sem fyrirbæri og möguleikar hennar til áhrifa á þá líkama sem fyrir henni verða er sérstaklega skoðað með hliðsjón að því hvernig heimspekingarnir Elizabeth Grosz og Rosi Braidotti leggja út frá hugtakasmíð Gilles Deleuze og Félix Guattari. Verkin eru skoðuð sem eining innan listfræðinnar og lít ég sérstaklega til Griseldu Pollock í því samhengi. Þaðan eru raktar leiðir sem sviðið notar til greiningar, þær hefðir sem skapast hafa innan þess og afleiðing hefðarinnar. Áherslan er á það hvernig myndlist birtist inn í samfélagið sem „Listasaga“ og hvort þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að skapa söguna nái utan um það hlutverk sitt í samtíma. Siib fjöldaframleiðir ljósmynda- og myndbandsverk, þar sem hver og einn rammi ljósmynda er án merkingar nema í samhengi við hina. Verkefni Freyu er viðburður án efnislegrar afurðar, nema til kynningar á sér sjálfum, sem notar atburði í rauntíma til þess að framleiða efnislegan veruleika fyrir sjálfan sig. Verkin birta hættur þess að gangast við hefðinni og þeirri óbærilegu, ónáttúrulegu íveru sem því fylgir fyrir ...
|