Summary: | Verkefni þessu var ætlað að draga saman hvaða áhrif kaupaukapakkningar hafa á sölu snyrtivarnings og hvaða væntingar smærri söluaðilar hafa til kaupauka. Framkvæmd var viðtalsrannsókn í apríl 2011 þar sem tekin voru viðtöl við eigendur þriggja snyrtivöruverslana á Akureyri, Snyrtistofunnar Jöru, Snyrtistofunnar Lindar og Make Up Gallery. Tilgangur verkefnisins var að kanna mat söluaðila á því hvort kaupaukar væru að skila aukinni sölu í snyrtivöruverslanir. Í fyrri hluta verkefnisins verður fjallað um neytendahegðun og undir henni verður farið yfir söluhvata og kaupauka. Hugtakinu „munaðarvara“ verður gerð skil ásamt því að farið verður yfir kaupákvörðunarferli neytenda og áhrifaþætti hins félagslega umhverfis við kaup á munaðarvörum. Fjallað verður um markaðsrannsóknir og verður sérstaklega einblínt á viðtalsrannsóknir en það er sú rannsóknaraðferð sem valin var í verkefni þessu. Ástæður þess að viðtalsrannsóknir urðu fyrir valinu eru þær að viðtalsrannsóknir gefa viðmælendum kost á að svara spurningum með eigin orðum og geta farið út fyrir efnið sem leiðir gjarnan til þess að fram koma upplýsingar sem spyrjanda hefði ekki dottið í hug að spyrjast eftir. Þar sem höfundur þessarar rannsóknar sóttist eftir því að fá álit eigenda snyrtivöruverslana á því hvort kaupaukar væru í raun að skila einhverju hentaði þessi tegund markaðsrannsókna verkefni þessu best. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að smærri söluaðilar snyrtivarnings hafa miklar væntingar til kaupauka hvað varðar aukningu í sölu og hafa kaupaukar gríðarleg áhrif á sölu snyrtivarnings þá daga sem kaupaukatilboðin eru í boði. Eigendur snyrti-vöruverslananna væntu þess einnig að kaupaukar mundu auka streymi viðskiptavina í snyrtivöruverslanirnar og ef vel tækist til, gætu þessir viðskiptavinir orðið fastakúnnar þeirra. Rannsókn þessi leiddi einnig í ljós óvæntar niðurstöður um hversu mikil áhrif birgja á snyrtivörumarkaðnum eru. Lykilorð: Snyrtivörur, Markaðsfræði, Neytendahegðun, Markaðsrannsóknir, Söluhvatar, Kaupaukar.
|