Summary: | Megintilgangur þessa verkefnis er að greina þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk í Rangárvallasýslu. Horft er til skilgreininga á hlutverki þeirra sem veita þjónustu í ljósi gildandi laga og þeirra hugmyndafræðilegu gilda sem lögin grundvallast á. Sérstök áhersla er á velferðarkerfið, þróun mannréttinda og velferðarþjónustu í dreifbýli. Í verkefninu er gerð könnun meðal foreldra fatlaðra barna og skoðuð viðhorf þeirra til þeirrar þjónustu sem í boði er. Fyrsti hluti verkefnisins er fræðileg umfjöllun um fatlanir. Annar hluti er um réttarstöðu fatlaðra, þriðji hluti er umfjöllun um velferðarkerfið með áherslu á þjónustu í dreifbýli. Í fjórða hluta er staða mála skoðuð með tilliti til atvinnu, búsetu og menntunar. Í fimmta hluta verkefnisins eru viðtöl við foreldra þriggja fatlaðra ungmenna og úrvinnsla úr þeim. Greint er frá undirbúningi málþings. Verkefnið er unnið á haustmisseri 2006 og vormisseri 2007. Helstu niðurstöður verkefnis eru að efla beri þjónustu í heimabyggð og þörf sé á að flytja þjónustu nær þjónustunotendum. Í viðtölum við foreldra kemur fram að langt hafi verið að sækja þá þjónustu sem þörf hafi verið á fyrir börnin. Þjónustuúrræði vanti í heimabyggð, búsetu, dagvistun, vinnu og tómstundir.
|