Summary: | Ritgerð þessi er lögð fram sem lokaverkefni til B.ed prófs við Háskólann á Akureyri. Í henni er fjallað um hugtakið umhyggju. Umhyggja hefur verið nokkurs konar tískuorð í menntaheiminum undanfarin ár. Þrátt fyrir mikla útbreiðslu hugtaksins hefur það verið illa skilgreint og vanrannsakað. Sá almenni misskilningur hefur verið ráðandi að með umhyggju sé eingöngu átt við blíð bros og hlý faðmlög. Í fyrri hluta ritgerðarinnar er meðal annars fjallað um kenningar Nel Noddings um siðfræði umhyggjunnar. Noddings útskýrir siðfræði umhyggjunnar sem tengsl sem fela í sér þá aðferð sem við notum er við mætum öðrum á siðferðilegan hátt. Reynt er að varpa ljósi á kenningar Noddings og hvernig hún sér þær nýtast í skólastarfi. Samhliða er fjallað lítilsháttar um kenningar annarra fræðimanna, eins og Carol Gilligan, Nancy Chodorow, Jean Tronto og Selmu Sevenhuijsen. Þær hafa sett fram kenningar sem lúta að þeim mun sem finna má á siðfræði umhyggjunnar og siðfræðilögmálum út frá kynjamun. Í seinni hluta ritgerðarinnar er fjallað um þann samhljóm sem finna má með kenningum Noddings og hugmyndafræði Loris Malaguzzi sem kennd hefur verið við Reggio Emilia á Ítalíu. Að lokum er sett fram námskrá sem byggð er á siðfræði umhyggjunnar og hugmyndafræði Malaguzzi.
|