Summary: | Með það að markmiði að bæta umferðaröryggi og draga úr slysum er ekki mælt með að keyra undir áhrifum margra lyfja, m.a. hugbreytandi lyfja líkt og róandi lyf og svefnlyf af flokki benzódíazepína og skyldra efna sem draga úr aksturshæfni ökumanna. Við réttarefnamælingar eru miklar kröfur gerðar um nákvæmni mælinga á efnum sem dæmt er eftir. Rannsóknastofur sem sinna slíkum mælingum gilda mæliaðferðir til að sýna fram á að aðferð virki sem skyldi og gefi áreiðanlegar og réttar niðurstöður. Í þessu verkefni var aðferð sem greinir benzódíazepín lyf og skyld efni í blóði og er notuð á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) gilduð. Í aðferðinni eru 15 benzódíazepín lyf og skyld efni sem eru magngreind og 8 umbrotsefni. Gildunarpróf sem voru framkvæmd voru: stöðugleiki, sérhæfni, línuleiki, smit milli innskota, matrixuáhrif og heimtur, áreiðanleiki og nákvæmni, greiningarmörk og magngreiningarmörk, traustleiki og þynningarréttmæti. Óvissa var einnig reiknuð fyrir aðferðina. Gildunin leiddi í ljós að aðferðin reynist sérhæfð fyrir öll efnin, án smita milli innskota og án matrixuáhrifa ásamt mjög góðum heimtum. Staðalkúrfur aðferðarinnar reyndust línulegar þegar 1/x vigtunarstuðull var notaður og sameiginleg greiningar og magngreiningarmörk fengust meðal greiningarefna. Traust- og stöðugleiki aðferðarinnar er viðunandi og áreiðanleikapróf staðfesti að niðurstöður falla vel að fræðilegum styrk. Óvissureikningar sýna að óvissa aðferðinnar er innan þeirra marka sem sett eru fyrir greiningarefnin að undanskildu greiningarefninu zolpidem. Aðferðin telst gilduð út frá niðurstöðum þessara prófa. Skoðuð voru gögn úr gagnasafni RLE af mælingum á benzódíazepín lyfjum og skyldum efnum meðal ökumanna teknir grunaðir um að vera undir áhrifum efna fyrir árin 2017-2023. Niðurstöður leiddu í ljós að hlutfall slíkra mælinga hefur verið á bilinu 25-33% af öllum akstursmálum RLE undanfarin 5 ár. Af þessum mælingum reyndust mál með jákvæðum benzódíazepín niðurstöðum vera rétt undir 50%. Í víðara samhengi þá eru jákvæðar ...
|