Summary: | Í þessari rannsókn var leitast við að meta virði straumvatns í þéttbýli út frá sjónarhorni umhverfis og samfélags. Rannsóknin beindist að Glerá sem rennur í gegnum þéttbýlið á Akureyri. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt; annars vegar að skoða landslagseinkenni og landnotkun meðfram Glerá og hins vegar að kanna hagrænt virði árinnar í hugum íbúa á Akureyri. Landslag meðfram Glerá var greint og flokkað með aðferðafræði landslagsgreiningar (e. landscape character assessment) en aðferðin byggir á þeirri skilgreiningu að landslag er allt umhverfi okkar, bæði manngert og náttúrulegt. Rannsóknarsvæðinu var skipt í sjö einkennissvæði sem hvert um sig var flokkað og greint m.t.t. landslagsþátta í því skyni að greina núverandi stöðu og þróunarmöguleika svæða og voru niðurstöður flokkaðar með SVÓT greiningu. Niðurstöður landslagsgreininga sýndu að svæði meðfram Glerá voru almennt vel gróin en samfella grænna svæða var rofin af umferðargötum og athafnasvæðum. Rannsóknarsvæðið var nánast allt manngert og raskað og ógegndræpt yfirborð ríkjandi á neðsta hluta þess. Þá voru umferðargötur jafnframt áberandi landslagsþáttur á nánast öllu svæðinu. Skjólleysi var einkennandi og gil og gljúfur árinnar stuðluðu að náttúrufegurð svæðisins. Með aðferðum umhverfishagfræðinnar var leitast við að leggja hagrænt mat á virði Glerár fyrir íbúa. Notast var við skilyrt verðmætamat (e. contingent valuation), þar sem spurningakönnun var lögð fyrir úrtak íbúa á Akureyri og þeir spurðir hvort og þá hversu mikið þeir voru reiðubúnir að greiða fyrir tiltekna uppbyggingu sem myndi leiða til aukins aðgengis að Glerá og bökkum hennar fyrir íbúa. Niðurstöður sýndu að þátttakendur voru reiðubúnir að greiða að jafnaði tæplega sjö þúsund krónur fyrir slíka uppbyggingu, sem þýðir um eitt hundrað milljónir króna fyrir alla skattgreiðendur í sveitarfélaginu. Þá leiddu niðurstöður jafnframt í ljós að þann ágóða sem samfélagið á Akureyri nýtur frá Glerá má fella undir bæði notagildi og gildi óháð notkun. Notagildi er töluvert, bæði fyrir innviði ...
|