Summary: | Markmið rannsóknarinnar var að fylgjast með fyrsta ári innleiðingar leiðsagnarnáms í einum grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2017-2018. Áhersla var lögð á að skoða skólaþróun, þ.e. hvernig gekk að innleiða aðferðir og verkfæri leiðsagnarnáms og hvort innleiðingin hefði áhrif á skólamenningu. Í aðalnámskrá er hvatt til þess að nota aðferðir leiðsagnarnáms og geta þær m.a. stutt kennara í að koma til móts við alla nemendur. Titill verkefnisins „Frábær mistök“ vísar til þess að hluti af hugmyndafræði leiðsagnarnáms er að fagna mistökum. Stuðst var við eigindlegar rannsóknaraðferðir, rannsóknin var unnin í anda starfendarannsókna, þar sem innleiðingarteymið auk rannsakanda sjálfs voru þátttakendur í rannsókninni ásamt völdum kennurum og verkefnastjóra innleiðingarinnar frá skóla- og frístundasviði. Stuðst var við menningar- og sögulegu starfsemiskenninguna til að stýra ferli rannsóknarinnar og einnig til gagnagreiningar. Gögn rannsóknarinnar voru dagbók höfundar, fundargerðir innleiðingarteymis og tölvupóstar ásamt viðtali og rýnihópafundi í lok skólaárs. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að vísir að breyttri skólamenningu sé að myndast. Talsmáti leiðsagnarnáms var meira áberandi eftir því sem leið á skólaárið og margir kennarar breyttu starfsháttum sínum í átt að leiðsagnarnámi. Á móti kom að ekki tóku allir kennarar skólans þátt í að prófa aðferðir leiðsagnarnáms. Það sem helst hjálpaði innleiðingunni áfram var að innleiðingarteymið skapaði vettvang fyrir faglega umræðu. Það var gert með því að halda stutta fundi með kennurum aðra hverja viku þar sem kennarar ræddu saman um verkefnið og deildu reynslu. Það er þó ljóst að innleiðing nýrra starfshátta tekur meira en eitt skólaár og innleiðingin heldur áfram næstu ár. Verkefnið hvetur vonandi aðra skóla til að taka upp aðferðir leiðsagnarnáms ásamt því að auðvelda fyrstu skrefin við innleiðingar, hvort sem það er á leiðsagnarnámi eða einhverju öðru. The aim of the study was to monitor the first year of implementation of formative assessment in an elementary ...
|