Summary: | Í ritgerðinni er fjallað um handbók fyrir sjálfboðaliða þar sem hreinsun og umhverfisvöktun Varmár í Mosfellsbæ er þungamiðjan. Markmið útgáfunnar er að stuðla að aukinni þekkingu almennings á umhverfismálum og hvetja til umhverfisvæns hátternis. Markhópurinn er nemendur á grunn- og framhaldsskólaaldri, undir leiðsögn kennara, og áhugasamur almenningur á eigin vegum eða undir stjórn skipuleggjanda. Varmá liggur í mikilli nálægð við þéttbýli og hafa mannlegar athafnir talsverð áhrif á lífríki árinnar. Með því að setja á fót sjálfboðaliðaverkefni er lagt upp með að fræða íbúa Mosfellsbæjar og aðra áhugasama um lífríki og vistfræði Varmár og kenna þeim að meta með hvaða hætti maðurinn hefur áhrif á lífríki árinnar. Í bókinni eru grunnupplýsingar um tilurð verkefnisins, markmið þess og tilgang. Fjallað er um Varmá, sögu hennar og vistkerfi og hvað áhugavert er að skoða í ánni. Rætt er um undirbúning verkefna, skipulag, ávinning og hagnýt atriði áður en lagt er af stað og að lokum eru lagðar fram tillögur að verkefnum og verklýsingum. Ritgerðin er þannig byggð upp að í inngangi er fjallað um tilurð verkefnisins, sjálfboðaliðastörf hér á landi og aðkomu Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis. Sérstakur kafli er um þarfagreiningu þar sem farið er yfir markmið, markhópa og lykilþætti sem eru til umfjöllunar í bókinni. Að lokum er kafli um efnistök og ritstjórnarlegar forsendur sem hafa þarf í huga þegar hugmyndinni er hrundið í framkvæmd. Bókin er enn í vinnslu og því er sagt frá útgáfuferlinu og hugmyndavinnunni hingað til. Í viðauka eru kynnt fyrstu drög að ritverkinu.
|