Summary: | Grein þessi byggir á niðurstöðum megindlegrar rannsóknar sem unnin var í tengslum við mastersverkefni í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands vorið 2016. Markmið rannsóknarinnar er að draga fram þá virðisskapandi þætti Reykjavíkurborgar sem mikilvægt er að hafa í huga við markaðsmiðun þeirrar viðskiptatengdu ferðamennsku sem tengist fundum, ráðstefnum, hvataferðum og sölusýningum (M.I.C.E). Spurningalisti var lagður fyrir erlenda M.I.C.E. skipuleggjendur úr gagnagrunni Meet in Reykjavík (MIR). Þeir þættir sem lágu til grundvallar rannsókninni voru: aðgengileiki, staðsetning, menning, náttúra, innviðir (gisting og fundaraðstaða), afþreying, verð, öryggi, ímynd og þjónusta. Þetta eru þeir þættir sem fjölþjóðlegar rannsóknir CBI og Cvent, benda til að séu ákvarðandi í vali M.I.C.E. skipuleggjenda á áfangastöðum fyrir viðburði. Engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á M.I.C.E vörunni í Reykjavík og geta niðurstöðurnar þar af leiðandi verið mjög nytsamlegar fyrir þá sem vinna að markaðsfærslu hennar þar. Helstu niðurstöður benda til þess að það séu hinir erfðu þættir áfangastaðar, frekar en hinir áunnu (Porter, 1990), sem skapa aukið virði í hugum skipuleggjanda M.I.C.E, og um leið samkeppnisforskot í þessari tegund ferðamennsku fyrir Reykjavík. Einnig gefa niðurstöður vísbendingar um þá áunnu þætti sem skipta skipuleggjendur máli við val á áfangastöðum, sem geta nýst til að skapa aukið virði fyrir skipuleggjendur, og um leið efla þennan markað í Reykjavík.
|