Summary: | Rannsóknarefni þessa verkefnis var að kanna viðhorf hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttökunni í Fossvogi (LSH) til starfsþróunar sinnar. Stefnt er að því að innleiða hæfniviðmið og mat fyrir hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttökunni haustið 2016 og fannst því rannsakanda áhugavert að skoða viðhorf hjúkrunarfræðinganna til þróunar sinnar í starfi og álit þeirra á notkun hæfniviðmiða og mats á Bráðamóttökunni. Þátttakendur rannsóknarinnar voru sjö hjúkrunarfræðingar sem starfa á Bráðamóttökunni í Fossvogi. Aldur þeirra var á bilinu 27 til 41 árs og flokkuðust þeir í byrjendur í starfi og reynda hjúkrunarfræðinga. Rannsóknin byggðist á eigindlegri aðferðarfræði og voru tekin hálfopin djúpviðtöl (e. semistructured interviews) í gegnum samskiptaforritið „Skype“. Farið var yfir hæfniviðmiðaskjalið sem á að innleiða á deildinni með viðmælendum og staðlaðar spurningar hafðar til stuðnings. Fyrirbærafræðin var síðan notuð við greiningu og úrvinnslu gagna. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að öllum nema einum hjúkrunarfræðingi fannst starfsþróun sín ganga vel og voru allir mjög jákvæðir gagnvart því að þróast í starfi og bæta sig. Reyndir hjúkrunarfræðingar settu sér frekar markviss markmið um þróun í starfi heldur en byrjendur. Þeir voru sammála um að meðal annars kennsla og þjálfun á Bráðamóttökunni hafði jákvæð áhrif á þróun þeirra í starfi sem og að leita stuðnings og ráðgjafar hjá samstarfsfólki sínu. Álag, mannekla og tímaskortur höfðu neikvæð áhrif á starfsþróun þeirra allra og hægði á markvissri þróun í starfi. Óformlegur lærdómur gagnaðist þeim best en munur var á notkun lærdómsaðferða milli byrjenda og reyndra hjúkrunarfræðinga. Þeir upplifðu þó almennt skort á stuðningi, eftirfylgni og hvatningu til þess að þróast markvisst í starfi þó að áherslumunur hafi verið á milli hópanna tveggja. Þeir voru jákvæðir fyrir innleiðingu hæfniviðmiða og mats og fannst margvíslegur ávinningur geta skapast við notkun þess. Þar á meðal aukið utanumhald um starfsþróun þeirra, aukin endurgjöf og stuðningur og síðast en ekki síst ...
|