Summary: | Ritgerðin fjallar um uppvöxt, fjölskyldutengsl og skólagöngu döff fólks á Íslandi. Sjónum var beint að barnæsku þeirra og hvaða aðstæður þau bjuggu við á uppvaxtarárum sínum. Ritgerðin byggir á eigindlegri rannsókn sem unnin var með hléum á árunum 2005 – 2009. Viðtöl voru tekin við átta döff einstaklinga og byggir ritgerðin á persónulegri reynslu þeirra og frásögn. Rannsóknin leiddi í ljós að þátttakendur fjarlægðust smátt og smátt hinn heyrandi heim og mynduðu sterkari tengsl við aðra döff einstaklinga. Þessi breyting hófst strax í æsku þegar kröfur um meiri samskipti í leikjum koma í ljós. Ef foreldrar og systkini döff fólks tileinkuðu sér ekki táknmál gat það leitt til hindrana í samskiptum og jafnvel haft áhrif á fjölskuldutengsl viðkomandi einstaklinga. Döff þátttakendur rannsóknarinnar segja frá fyrstu minningum sínum og reynslu sinni af því að búa á heimavist Heyrnleysingjaskólans. Fjarlægðin frá fjölskyldu og heimahögum gat verið erfið fyrir lítið barn sem gerði sér ekki endilega grein fyrir hvað væri að gerast í lífi þess. Þá er fjallað um reynslu þátttakenda af skólakerfinu og mikilvægi Heyrnleysingjaskólans á mótunarárum þátttakenda og um samfélag og menningu döff fólks. Niðurstöður benda til þess að mikilvægt sé að tryggja að döff fólk hafi aðgengi að táknmáli í öllum aðstæðum, á heimili sínu, í skólanum, vinnunni og félagslífinu. Að þeirra mati er það forsenda fyrir vellíðan og velfarnaði í lífinu. Væru þær aðstæður fyrir hendi töldu þátttakendur sig standa jafnfætis heyrandi fólki, en það er sá hópur sem döff fólk ber sig gjarnan saman við fremur en aðra hópa fatlaðs fólks. Listin að lifa í heyrandi heimi felst í táknmálinu. Án táknmáls er döff fólk svipt getunni til að tjá sig, skilja umhverfi sitt og taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra. This thesis describes childhood, family relationships and school experiences of Deaf people in Iceland, focusing on the conditions during their upbringing. The thesis is based on a qualitative study, which was conducted periodically during 2005 – 2009. ...
|