Summary: | Árið 1999 var fyrsta Iceland Airwaves hátíðin haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og er talið er að rúmlega 500 erlendir gestir hafi sótt hátíðina það ár. Síðan fyrsta hátíðin var haldin hefur Iceland Airwaves stækkað bæði í fjölda gesta og áhrifa sem hátíðin hefur. Markmið hátíðarinnar hefur ætíð verið þríþætt, þ.e að halda tónlistarhátíð á heimsmælikvarða, kynna íslenska tónlist og lengja ferðamannatímabilið hérlendis. Aðal markmið þessarar ritgerðar var að finna hver áhrif Iceland Airwaves hátíðarinnar er á fyrirtæki í miðborg Reykjavíkur. Til að byggja upp niðurstöður var notast við eigindlega- og megindlega rannsóknaraðferð. Í eigindlegri aðferð voru viðtöl tekin við skipuleggjendur hátíðarinnar en í megindlegu aðferðinni var gerð könnun þar sem verslunareigendur í miðbæ Reykjavíkur svöruðu spurningum rannsakanda. Fjallað verður fræðilega um hátíðir og hvaða áhrif ímynd og orðspor Iceland Airwaves hefur á Reykjavíkurborg og verða fræði tengt því skoðuð. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að Iceland Airwaves hefur bæði jákvæð félagsleg- og efnahagsleg áhrif á höfuðborgina. Hátíðin lífgar upp á borgina á þeim tíma þegar annars væri minna um að vera og lengir ferðamannatímabilið. Veltan sem hátíðin skilar borginni hefur áhrif á rekstur ýmssa fyrirtækja í miðborg Reykjavíkur en í rannsókn sem framkvæmd var árið 2012 af ÚTON (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) kom í ljós að velta erlendra gesta hátíðarinnar var u.þ.b. 802 milljónir króna. Í rannsókninni kom m.a. í ljós að þær verslanir sem reyna að ná til erlendra gesta hátíðarinnar finna meira fyrir áhrifum frá þeim heldur en verslanir sem ekkert gera til að kynna sig fyrir erlendu gestunum. Hátíðin kynnir Ísland ekki einungis sem náttúruperlu og útivistarsvæði heldur einnig sem tónlistar- og menningarborg, þannig styrkir hátíðin orðspor og ímynd landsins.
|