Summary: | Neðst á síðunni er hægt að nálgast greinina í heild sinni með því að smella á hlekkinn Skoða/Opna(view/open) Hlutverk svefns hefur um langan aldur vakið margvíslegar spurningar hjá manninum. Í grískri goðafræði greinir frá guðinum Hypnos, sem vitjaði fólks og svæfði með því að blaka vængjunum, sem festir voru á gagnaugum, jafnframt því sem hann jós svefni úr horni því sem hann hafði meðferðis (mynd 1). Hann átti þúsund sonu og meðal þeirra var Morpheus, guð draumanna. (Sami orðstofn kemur fyrir í orðinu morfíni sem unnið er úr ópíumjurtinni, sem var einkennisjurt föður hans). Lengi hefur og lifað sú trú að náin tengsl sé á milli svefns og dauða, þar sem eðlismunur væri enginn, aðeins stigsmunur. Grísk goðafræði hermir enda að Hypnos og Thanatos, guð dauðans hafi verið tvíburar. Þetta hefur orðið mörgu skáldinu og listamanninum að viðfangsefni. Grísku heimspekingarnir á 5. og 6. öld fyrir Krist álitu að svefninn endurspeglaði óvirkt ástand líkamans, þar sem skynjun væri skert eða óvirk, m.ö.o. að heilinn sofnaði ef hann fengi ekki nægilega örvun. Sú skoðun hefur átt fylgi að fagna allt fram á þessa öld. Ýmsar kenningar voru um orsök svefnsins. Aristoteles lýsti því m.a. hvernig heitar gufur stigu upp í kjölfar áts og/eða áreynslu, þéttust í höfðinu og úthýstu þar með andanum. Á þann hátt setti að mönnum drunga og svefnhöfgi. En segja má að kjarni flestra þessara kenninga sé sá að annaðhvort tilfærsla blóðs frá ytri hluta til innsta kjarna líkamans eða kæling blóðsins setji af stað svefninn (Wittern, 1989). Með hliðsjón af hugmyndum okkar nú í dag má segja að þessir menn hafi verið harla framsýnir. Tilgang svefnsins töldu þeir vera endurnýjun skynjunarinnar (sem ýmist átti sér bústað í hjarta eða heila), endurnýjun heila, endurnýjun innri varma og verndun lífverunnar. Verður það að teljast merkilegt að þrátt fyrir tækni og þekkingu okkar tíma hafa þessar kenningar um tilgang svefnsins enn þann dag í dag hvorki verið að fullu sannaðar né hraktar. Almennt er talið nú að svefninn þjóni a.m.k. þríþættum tilgangi: a) ...
|