Summary: | Neðst á síðunni er hægt að nálgast greinina í heild sinni með því að smella á hlekkinn Skoða/Opna(view/open) Í þessu hefti Læknablaðsins er þarft innlegg í umræðu síðustu ára um notkun þunglyndislyfja.1 Ef marka má greinina eru viðhorf fólks á Íslandi til meðhöndlunar þunglyndis með lyfjum almennt jákvæð og því jákvæðari sem það er betur upplýst um þunglyndismeðferð. Niðurstöðurnar eru ánægjulegar í ljósi þess að framan af þessum áratug beindist fréttaflutningur oft að vaxandi notkun og kostnaði þunglyndislyfja og vangaveltum í þá veru að um óeðlilega aukningu væri að ræða. Virtist þar litið fram hjá því að fjölmargar skýringar gætu legið að baki aukinni þunglyndislyfjanotkun. Nefna má að hugsanlegt er að vaxandi umræða um þunglyndi meðal almennings hvetji fólk til að leita sér hjálpar fyrr en áður. Minni fordómar gagnvart þunglyndi ættu að hafa sömu áhrif. Fleiri ábendingar eru fyrir þunglyndislyfjanotkun nú en áður, meðal annars fjölmargar kvíðaraskanir og lyfin eru einnig auðveldari í notkun. Nærtækasta skýringin er samt sú að fleiri telja sig þurfa á meðferð að halda en á tíunda áratugnum. Rannsókn birt 2004 benti til þess að tíðni þunglyndis hefði ekki breyst hér á landi frá 1984 til 2002, þótt algengi þunglyndis- og kvíðaeinkenna á meðal kvenna hefði reyndar aukist.2 Rannsóknum ber þó ekki saman á milli landa. Á 10 ára tímabili, frá 1992 til 2002, jókst tíðni þunglyndis í Bandaríkjunum úr 3,3% í 7,1% í rannsókn þar sem verulega var vandað til greininga.3 Þetta er talin meginskýring aukinnar þunglyndislyfjanotkunar í Bandaríkjunum á tímabilinu 1992 til 2003 en þá óx hlutfall Banda-ríkjamanna á þunglyndislyfjameðferð úr 2,2% í 10,1%.4
|